Færsluflokkur: Menning og listir

Smá jákvæðni

Eftir að hafa lesið allt of margar fréttir um sandkassaleiki á Alþingi varðandi IceSave-snilldina, lélegt gengi Liverpool undanfarið og almennar hrunfréttir þykir mér kominn tími á smá jákvæðni.

Ef ekki væri fyrir það að ég er vel innmúraður í Alþjóðlega Athafnaviku í nóvember er ég ekki viss um að ég myndi vita af henni ennþá. Í þeirri viku gefst öllum kostur á því að gera hvað sem þeir vilja til þess að knýja áfram lífsþróttin og sýna að við séum svo langt frá því dauð úr öllum æðum.

Það virkilega jákvæða við þetta ástand er, að ég tel, að virkilega klárt fólk, óháð menntun og fyrri störfum, getur nú notað krafta sína í þágu þess sem það hefur kannski alltaf langað til að gera. Hugmyndaflugið hefur aldrei verið mikilvægara en nú vegna þess að í atvinnuástandi sem þessu verður fólk að læra að bera sig eftir björginni. Þannig fer fólk kannski frekar að vinna með þær hugmyndir sem það hafði í kollinum á meðan það var í þægilegri vel borgaðri innivinnu og tekst þannig jafnvel að búa til fullt af skemmtilegum og áhugaverðum störfum í kringum sig.

Sjálfur sá ég mörg dæmi um þetta á námskeiði sem ég sat í sumar þar sem fólki var hjálpað við stofnun og rekstur nýrra fyrirtækja. Þar var mikið af fólki sem hafði misst vinnuna en var langt frá því að missa vonina og jafnvel að láta gamla drauma loksins rætast. 

Auðvitað er ekkert frábært við það að fjöldi fólks missi vinnuna, geti ekki borgað af lánunum sínum og séu við það að missa húsin sín. En neyðin kennir naktri konu að spinna segir máltækið og ef eitthvað er Íslendingum í blóð borið er það sjálfsbjargarviðleytnin.


Þvílík vonbrigði

Nú veit ég ekki hvort þessi færsla á eftir að verða þess verkandi að ég þurfi að hætta flokksstarfi í Samfylkingunni en mér er bara nákvæmlega sama:

Hvað í ólíkindar ósköpunum hefur Björgvin G. Sigurðsson gert til þess að verðskulda það að halda efsta sætinu í Suðurkjördæmi fyrir flokkinn? Þegar háværar kröfur eru um endurnýjun og ekki sama fólkið inn á þing velja prófkjörsþátttakendur þann mann í efsta sætið sem síðasta eitt og hálfa árið í starfi á þingi var yfirboðari Fjármálaeftirlitsins, kom ítrekað fram í fréttum eftir hrun og sagðist ekki hafa hugmynd um hvað verið væri að tala um þegar mikilvæg mál úr hans ráðuneyti, eða sem viðkomu hans ráðuneyti, báru á góma, og flestir eru sammála um að stóð sig bara hreint ekki vel í starfi.

Hann reyndi að búa sér til goodwill með því að segja af sér nokkrum mánuðum eftir að allt hrundi og greinilegt var að hann var ekki með í einu né neinu í ríkisstjórninni eða því sem var að gerast undir hans ráðuneyti en einhverra hluta vegna hélt ég að flestir hefðu séð í gegnum það. Þetta var ekkert nema ódýr leið til að reyna að líta vel út, búinn að spila rassinn úr buxunum eins og allir hinir en samt fyrstur til að segja af sér, "bera pólitíska ábyrgð" ... Einmitt.

Skömmu seinna slitnaði ríkisstjórnarsamstarfið og viti menn, Björgvin áfram í starfsstjórn. Frábært.

Samt er maðurinn nógu óforskammaður til þess að bjóða sig fram á nýjan leik, og aftur í fyrsta sætið. Það sem verra er þykir mér það að prófkjörskjósendur hafi verið nógu vitlausir til þess að kjósa hann. Ætli Samfylkingin sér eitthvað í næstu kosningum er þetta ekki rétta leiðin, þetta er leiðin til þess að strika sig beint út úr stjórninni.


Hvar er Hörður Torfa núna?

Í þessari frétt er bersýnilega verið að blanda saman persónulegu lífi og pólitísku lífi, ofsalega heimskuleg frétt.

Í raun er þetta ekki til þess að hjálpa réttindabaráttu samkynhneigðra því þetta ætti ekki að koma málinu neinn skapaðan hlut við. Með því að stimpla hana, líkt og gert er í fréttinni, er baráttan í raun að snúast í andhverfu sína, það er verið að segja að það sé eitthvað sérstakt og öðruvísi við að vera samkynhneigður. Er það eitthvað sem réttindabaráttufólk vill? 


mbl.is Jóhanna vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var auðvitað

Hversu marga fréttatíma hefur maður séð Björgvin G. koma af fjöllum varðandi málefni sem heyra nánast beint undir hans ráðuneyti? Hvað gerði FME til þess að sporna við því að bankarnir yrðu ekki of stórir eða of skuldsettir? Þrátt fyrir það sat Björgvin lengi áfram og hlustaði á háværan róm þess efnis að ríkisstjórnin væri vanhæf og einhverjir þyrftu að sýna ábyrgð. Nú loks gerir hann það og maður af örlítið meiri.

En það að Ingibjörg formaður sjái þetta ekki sem sjálfsagðan hlut og þetta komi henni á óvart segir allt um það hversu veik hún er í starfi formanns flokksins og einu valdamesta embætti þjóðarinnar. Eins og hún trúi því ekki að innan þingflokks hennar sé enn að finna heiðarlegt fólk sem hlusti á það sem er að gerast utan hans, einhverjir sem skynja raunveruleikann örlítið. Nú er komið nóg Ingibjörg, ég efast um að nokkur kjósandi Samfylkingarinnar vilji sjá þig leiða flokkinn til næstu kosninga, a.m.k. ekki ég.


mbl.is Ingibjörg Sólrún: Afsögn Björgvins kom á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfti þá ekki að mæta

Aðalástæðan fyrir því að mig langaði til þess að mæta á fund Samfylkingarinnar í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld var sú að mig langaði til þess að koma mínu fram við ráðherra flokksins, og þá spyrja líka hvort þingmenn flokksins bera virkilega traust til ráðherranna.

Ráðherrar mættu ekki og fundarmenn samþykktu ályktun um stjórnarslit. Þá er bara að boða landsfund og breyta innviðum flokksins. Þar ætla ég að vera.


mbl.is Samþykktu ályktun um stjórnarslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt ár - nýir tímar

Ákvað að yfirplebba mig og opna svona moggablogg, kannski er þetta bara þægilegasta kerfið, ég veit það ekki.

Er ekki rétt að líta yfir farinn veg, skoða síðasta árið fyrst maður er að þessu:
Best ársins 2008:
- Erna Kristín toppar listann, 26. ágúst var eftirminnilegur. Lipur fæðing, myndarstúlka og dafnar hreint frábærlega. Öllum að óvörum var ég orðinn þriggja barna faðir.

- Englandsferðin í byrjun árs verður seint toppuð. Tveir eftirminnilegir leikir, sætin á Old Trafford á ótrúlegum stað, sat í fyrsta sinn á efri hæð í tveggja hæða strætó, næstumþví-ránið í Kínahverfinu í Manchester, að koma á Anfield, svitinn á Albert Inn - svo ekki sé talað um átján tíma ferðalagið frá Íslandi til Manchester, ef biðin á Leifsstöð er tekin með.

- Kláraði námið í Keili og kom mér í háskóla. Olli þó sjálfum mér vonbrigðum með námsvali en úr því verður bætt á þessu ári.

Þetta eru líklega persónulegir hápunktar ársins. Bæti við einhverju fleiru skemmtilegu á þetta blogg von bráðar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband