Færsluflokkur: Íþróttir

Meistaradeildarvangaveltur

Eftir leiki kvöldsins er ljóst hvaða átta lið verða í pottinum og er alveg ljóst að um slefandi spennu verður að ræða á meðal knattspyrnuáhugamanna hvernig liðin raðast.

Furðufá ensk lið eru í átta liða úrslitum þetta árið, Liverpool féll út í riðlakeppninni og Jose Mourinho er enn taplaus á Stamford Bridge en Arsenal og Manchester Utd. halda uppi heiðri enskra og hljóta þau bæði að teljast líkleg til þess að spila úrslitaleikinn.

Ríkjandi Heims-, Evrópu- og Spánarmeistarar (auk spænska bikarsins)komust áfram með öruggum sigri í kvöld ásamt franska liðinu Bordeaux en tvö frönsk lið verða í 8-liða úrslitum þetta árið. Hitt franska liðið er auðvitað Lyon sem gerði sér lítið fyrir og sló út uppáhald spænsku konungsfjölskyldunnar í tveimur stórskemmtilegum leikjum.

Bayern Munchen er að rísa upp úr öskustónni en þeir áttu í mesta basli með frískt lið Fiorentina, CSKA Moskva er með gríðarlega sterkt lið sem getur sigrað hverja sem er á heimavelli sínum og Jose Mourinho getur minnkað sjálfstraust hvaða stjóra og leikmanna sem er með sálfræðileikjum sínum, auk þess sem Inter Milan er með gríðarlega sterkan leikmannahóp.

Semsagt, tvö ensk, tvö frönsk, ítalskt, spænskt, þýskt og rússneskt lið í 8-liða úrslitum. Ég ætla að leyfa mér að henda upp óskaleikjum hér:

Arsenal - Barcelona
Inter - Bordeaux
Þessir tveir leikir mega endilega raðast á sama dag. Þvílík veisla sem ég held að tveir leikir á milli Arsenal og Barca myndu vera fyrir knattspyrnuáhugamenn og að sama skapi væri fínt ef annaðhvort Inter eða Bordeaux myndu falla úr leik fyrir undanúrslitin því bæði lið leggja gríðarlega áherslu á varnarleikinn.

Manchester Utd. - Bayern Munchen
Lyon - CSKA Moskva
Báðar þessar viðureignir myndu bjóða upp á skemmtilega knattspyrnu í samanlagt 180 mínútur og jafnvel lengur. Ellefu ár eru síðan Man. Utd. sigraði Bayern með ótrúlegum lokakafla í úrslitaleik þessa móts og í ár held ég að Bayern myndu vera rétt aðeins of litlir fyrir Utd. Í hinni viðureigninni myndu svo eigast við lið sem kæmu algjörlega pressulaus í undanúrslitin og gætu gert þar mikinn usla. Jafnvel væri gaman að fá fleiri leiki á milli Man. Utd. og CSKA Moskva en þetta eru þær viðureignir sem ég myndi vilja sjá.

Svo ég spái enn lengra þá myndu undanúrslitin koma þannig:
Barcelona - Inter
Manchester Utd. - CSKA Moskva 


mbl.is Barcelona og Bordeaux áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttuvonbrigði

Vel má vera að ég sé gamaldags í hugsun hvað styttugerð varðar en hvað á þessi stytta fyrir framan höfuðstöðvar KSÍ að þýða? Hvers vegna mátti ekki gera eðlilega styttu af Alberti Guðmundssyni í staðinn fyrir illa mótað andlit á gjörsamlega afskræmdum líkama í ankannalegri stellingu? Nöldurseggurinn í mér telur að allt eins hefði verið hægt að setja eina af þunglyndu andlitslausu styttunum hennar Steinunnar einhversdóttur sem stóðu eins og hráviði um alla borg.

Ég hlakkaði mikið til að sjá styttu af þessum mikla knattspyrnumanni sem ruddi braut fjölmargra íslenskra knattspyrnumanna með glæstum ferli sínum og mætti sína honum meiri sóma en þetta verk sem stendur fyrir utan Laugardalsvöllinn. Ég er strax farinn að kvíða fyrir styttunni af Jóni Páli.


Verðskuldun fyllileg

Merkilegur karakter og magnaður fyrirliði. Frábær íþróttamaður og frjór hugsuður. Margt sem maður gæti fleira sagt til þess að lofa íþróttamann ársins 2008, ekki oft sem menn vinna fullnaðarsigur með fullt hús stiga í þessu kjöri en hann átti það bara skilið. Skilaði Íslandi sínum fyrsta verðlaunapening í stórmóti í hópíþrótt (áður en einhver ætlar að vera sniðugur þá tek ég það fram að bridge er ekki íþrótt), varð Spánar- og Evrópumeistari með Ciudad Real þar sem hann stóð upp þegar mest á reyndi á útivelli gegn Kiel og vann leikinn nánast upp á eigin spýtur.

Þrátt fyrir að hann komi oft furðulega út í viðtölum eru viðtölin við hann alltaf skemmtileg. Hann er ekki jafn útreiknanlegur og margir kollega hans heldur segir hann nákvæmlega það sem honum sýnist. Maður er aldrei viss um hvar maður hefur hann þegar maður sér viðtöl við hann. Hann er yfirleitt grafalvarlegur en á auðvelt með að skipta um gír og verður glettinn án þess að mikið sjáist á.

En eins og áður segir, fyllilega verðskuldaður sigur á frábæru íþróttaári sem var toppað með silfri á Ólympíuleikunum. (Stelpurnar okkar toppa á þessu ári - hlakka til að sjá þær komast nálægt verðlaunasæti.)


mbl.is Ólafur Stefánsson íþróttamaður ársins 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband