Það læra börnin ...

Máltækið segir að börnin læri jú það sem fyrir þeim er haft (sem ætti að segja mér að eyða minni tíma í tölvu, síma og við sjónvarp miðað við uppáhaldsleikföng eins árs dóttur minnar).

Í hádeginu í dag eiga að vera mótmæli á Austurvelli þar sem, eftir því sem mér skilst, fólk ætlar að reyna að fá sínu fram með frekjuöskrum. Uuu ... sko. Ekki er langt síðan ég var barn sjálfur og nú á ég þrjú börn og ef það er eitthvað sem ég hef lært sem foreldri þá er það það að láta börnunum mínum það ekki eftir ef þau vilja fá sínu fram með frekjuöskrum. Því hærra sem þau öskra þeim mun meira reynir það vissulega á þolinmæðina en allt snýst þetta um að láta ekki undan.

Nú hefur semsagt fullorðið fólk ákveðið að hópast saman fyrir utan Alþingi og ætlar að fá sínu fram með því að gera það sem þau vilja ekki að börnin sín geri. Hvað eiga börn þá að læra af þessu?


Náttúruhamfarir

Sem ég sit í lesstofu grunnnema (orð með þreföldum sama samhljóða eru frábær) og hef lokið verkefni í rannsóknaraðferðum í mannfræði langar mig að rita eitt.

Mönnum virðist vera tíðrætt um að það sem átti sér stað við hrun bankakerfisins og viðskiptalífsins hér á landi hafi verið náttúruhamfarir og því hafi þáverandi stjórnvöld ekki geta sagt af sér vegna þess að strax þurfti að taka til við nauðsynlegar björgunaraðgerðir. Höldum aðeins áfram með þessa pælingu:

Segjum sem svo að í mörg ár/ marga mánuði væri búið að vara stjórn almannavarnarnefndar við agalegum náttúruhamförum hér á landi á næstunni. Getum ímyndað okkur að sérfræðingar væru búnir að spá gríðarlegu eldgosi sem myndi rústa byggðum í hundruða kílómetra radíus. Ítrekað myndi nefndin og stjórn hennar koma fram í fjölmiðla og þræta fyrir þetta og segja að allt væri í besta lagi og ekkert að marka spár sérfræðinga, þau vissu miklu betur sjálf. Semsagt: Í stað þess að vara fólk við og gera viðeigandi ráðstafanir, hverjar sem þær svo væru, myndu þau láta eins og ekkert hafi í skorist og fólk myndi halda lífi sínu áfram treystandi á forystu þeirra sem eru valdir til starfans.

Svo kemur eldgosið, byggðir leggjast af, fjöldi fólks missir heimili sín og allt sem það hefur unnið fyrir. Er stjórninni og nefndinni þá stætt að halda áfram sínu starfi? Ég bara spyr.


Þvílík vonbrigði

Nú veit ég ekki hvort þessi færsla á eftir að verða þess verkandi að ég þurfi að hætta flokksstarfi í Samfylkingunni en mér er bara nákvæmlega sama:

Hvað í ólíkindar ósköpunum hefur Björgvin G. Sigurðsson gert til þess að verðskulda það að halda efsta sætinu í Suðurkjördæmi fyrir flokkinn? Þegar háværar kröfur eru um endurnýjun og ekki sama fólkið inn á þing velja prófkjörsþátttakendur þann mann í efsta sætið sem síðasta eitt og hálfa árið í starfi á þingi var yfirboðari Fjármálaeftirlitsins, kom ítrekað fram í fréttum eftir hrun og sagðist ekki hafa hugmynd um hvað verið væri að tala um þegar mikilvæg mál úr hans ráðuneyti, eða sem viðkomu hans ráðuneyti, báru á góma, og flestir eru sammála um að stóð sig bara hreint ekki vel í starfi.

Hann reyndi að búa sér til goodwill með því að segja af sér nokkrum mánuðum eftir að allt hrundi og greinilegt var að hann var ekki með í einu né neinu í ríkisstjórninni eða því sem var að gerast undir hans ráðuneyti en einhverra hluta vegna hélt ég að flestir hefðu séð í gegnum það. Þetta var ekkert nema ódýr leið til að reyna að líta vel út, búinn að spila rassinn úr buxunum eins og allir hinir en samt fyrstur til að segja af sér, "bera pólitíska ábyrgð" ... Einmitt.

Skömmu seinna slitnaði ríkisstjórnarsamstarfið og viti menn, Björgvin áfram í starfsstjórn. Frábært.

Samt er maðurinn nógu óforskammaður til þess að bjóða sig fram á nýjan leik, og aftur í fyrsta sætið. Það sem verra er þykir mér það að prófkjörskjósendur hafi verið nógu vitlausir til þess að kjósa hann. Ætli Samfylkingin sér eitthvað í næstu kosningum er þetta ekki rétta leiðin, þetta er leiðin til þess að strika sig beint út úr stjórninni.


Framtíðin

Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér. En maður hefur hana jú sjálfur í sínum höndum.

Ég hef áður lýst því yfir á þessu bloggi mínu að ég hafi áhuga á því að starfa í stjórn Samfylkingarinnar. Ég er langt í frá hættur við þá ákvörðun og næstu daga mun jafnvel einhver yfirlýsing líta dagsins ljós hér á þessari síðu. Það verður þó ekki fyrr en að vel athuguðu máli og þegar ég er kominn með sterka stefnu sem mun tryggja mér sigur í þeim átökum, enda tilgangslaust að keppa nema til sigurs.


Hvar er Hörður Torfa núna?

Í þessari frétt er bersýnilega verið að blanda saman persónulegu lífi og pólitísku lífi, ofsalega heimskuleg frétt.

Í raun er þetta ekki til þess að hjálpa réttindabaráttu samkynhneigðra því þetta ætti ekki að koma málinu neinn skapaðan hlut við. Með því að stimpla hana, líkt og gert er í fréttinni, er baráttan í raun að snúast í andhverfu sína, það er verið að segja að það sé eitthvað sérstakt og öðruvísi við að vera samkynhneigður. Er það eitthvað sem réttindabaráttufólk vill? 


mbl.is Jóhanna vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var auðvitað

Hversu marga fréttatíma hefur maður séð Björgvin G. koma af fjöllum varðandi málefni sem heyra nánast beint undir hans ráðuneyti? Hvað gerði FME til þess að sporna við því að bankarnir yrðu ekki of stórir eða of skuldsettir? Þrátt fyrir það sat Björgvin lengi áfram og hlustaði á háværan róm þess efnis að ríkisstjórnin væri vanhæf og einhverjir þyrftu að sýna ábyrgð. Nú loks gerir hann það og maður af örlítið meiri.

En það að Ingibjörg formaður sjái þetta ekki sem sjálfsagðan hlut og þetta komi henni á óvart segir allt um það hversu veik hún er í starfi formanns flokksins og einu valdamesta embætti þjóðarinnar. Eins og hún trúi því ekki að innan þingflokks hennar sé enn að finna heiðarlegt fólk sem hlusti á það sem er að gerast utan hans, einhverjir sem skynja raunveruleikann örlítið. Nú er komið nóg Ingibjörg, ég efast um að nokkur kjósandi Samfylkingarinnar vilji sjá þig leiða flokkinn til næstu kosninga, a.m.k. ekki ég.


mbl.is Ingibjörg Sólrún: Afsögn Björgvins kom á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfti þá ekki að mæta

Aðalástæðan fyrir því að mig langaði til þess að mæta á fund Samfylkingarinnar í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld var sú að mig langaði til þess að koma mínu fram við ráðherra flokksins, og þá spyrja líka hvort þingmenn flokksins bera virkilega traust til ráðherranna.

Ráðherrar mættu ekki og fundarmenn samþykktu ályktun um stjórnarslit. Þá er bara að boða landsfund og breyta innviðum flokksins. Þar ætla ég að vera.


mbl.is Samþykktu ályktun um stjórnarslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jah há

Ég veit ekki með Geir, en ef ég hefði fengið svona langt jólafrí eins og hann með öll þau málefni sem liggja á herðum hans þá væri ég ekki að væla yfir því að ég þyrfti einhvern helvítis vinnufrið.

Annað: Hann segir ríkisstjórnina enn hafa þingmeirihluta á bakvið sig. En hverjir eru á bakvið þingmeirihlutann? Jú, kjósendur sem kusu í góðri trú undir allt öðrum forsendum og kringumstæðum og eru nú til staðar. Þegiðu Geir, eða reyndu í það minnsta að hugsa aðeins út í það sem þú segir.

Ég ítreka það að ég er ekki bara andvígur Geir og Flokknum hans, heldur finnst mér Ingibjörg og Fylkingin heldur ekki hafa neitt umboð frá mér eða öðrum kjósendum Fylkingarinnar inni á þingi miðað við hegðun þeirra. Eins hefur andstaðan ekkert gert og verið steingeld. Nýtt fólk takk.


mbl.is Mikilvægt að stjórnin fái vinnufrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþarfur boðskapur

Sem faðir þá hef ég verslað og klætt börnin mín í föt, svokölluð barnaföt. Þegar fötin hafa orðið skítug hef ég sett þau í þvottavél og athugað á þar til gerðan miða hvort setja megi flíkina í þurrkara. "Gríðarlega spennandi saga" hugsa nú eflaust margir. Málið er nefnilega það að ég hef tekið eftir áletrun á barnafötum, yfirleitt koma þau föt frá NEXT en nú hjó ég eftir því að þetta er líka á NIKE fötum.

Þessum fyrirtækjum er nefnilega það annt um fötin sín að þau vilja alls ekki að eigendur þeirra geri þau að eldsmat. Í hálsmálinu stendur með stórum stöfum: KEEP AWAY FROM FIRE. Ég er ekki alveg viss um af hverju framleiðendurnir halda að ég sé eitthvað endilega að fara að setja fötin nálægt eldi eða sérstaklega að slökkva í eldum með þeim. Einhvern veginn efast ég um að barnafötin yrðu það fyrsta sem ég myndi grípa til að verja mig fyrir eldi þrátt fyrir að áletrunin væri ekki þarna.


Jólabækurnar

Kláraði í gær að lesa fjórðu og síðustu bókina af þeim skáldsögum sem ég fékk í jólagjöf þetta árið. Allar umræddar bækur voru nýjar og eftir íslenska höfunda líkt og fimmta bókin sem ég fékk, Íslensk Knattspyrna 2008, sem er orðin að klassísku uppflettiriti eins og hinar bækurnar, frábært framtak hjá Víði Sigurðssyni og svo sannarlega til eftirbreytni, væri gaman að sjá svona gert fyrir aðrar íþróttir.

En aftur að skáldsögunum. Allar flokkast þær undir glæpasögur enda þrír af þessum fjórum höfundum þekktir fyrir slíkar sögur.

1. 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp - Hallgrímur Helgason
Einhvers staðar var þessi bók sögð með versta titilinn og þetta væri tilraun höfundar til að vera fyndinn en væri meira í anda menntaskólastráks til þess og væri bara alls ekkert fyndið. Þetta er heldur ekki beint jólabók hjá mér þar sem ég fékk hana í afmælisgjöf og þess vegna las ég hana fyrst. Þetta er mjög óvenjuleg bók á Hallgríms mælikvarða held ég. Það litla sem ég hef lesið eftir hann hingað til er rosalegur orðaflaumur þar sem lítið gerist í lífi aðalpersónunnar sem maður fær þó að kynnast mjög vel og er oft mjög athyglisverð stúdía.

Þessi bók hins vegar er nokkuð hröð og töluvert action í henni. Við fáum að kynnast Króatanum Toxic sem er vel merktur eftir Júgóslavíustríðið og lendir óvænt á Íslandi eftir misheppnað verkefni sem leigumorðingi í New York. Undirliggjandi samfélagsrýni Hallgríms er nokkuð skemmtileg og hann er frábær sögumaður, get alveg mælt með þessari bók, er skemmtileg þó hún sé kannski ekki eitthvað stórvirki.

2. Myrká - Arnaldur Indriðason
Kóngurinn mættur með enn eina bókina en nú fær Erlendur hvíld. Þó er teymið hans í fullu fjöri í þessarri bók og fáum við nú að skyggnast betur inn í líf samstarfskonu hans, Elínborgar. Ágætt að fá smá frí frá Erlendi enda kannski ekki miklu við líf hans að bæta eftir síðustu bækur og málið sem tekið er á í bókinni er nokkuð spennandi og teygir anga sína víða eins og svo oft í bókum Arnaldar. Eins og flestar hans bækur skemmtileg lesning sem maður á erfitt með að skilja við sig.

 3. Ódáðahraun - Stefán Máni
Undirheimarnir og andhetjur eru viðfangsefni Stefáns. Ég hef líka lesið Skipið eftir hann þar sem aðalpersónurnar eru nokkuð margar en flestar frekar súrar. Núna er boðið upp á eina aðalpersónu, mann sem hefur gert sig breiðan í undirheimunum eftir fremur erfiða æsku og býðst svo frábært tækifæri til þess að koma sér inn á hvítflibbamarkaðinn. Alveg þrælspennandi bók með fínu plotti og í raun ekkert brjálæðislega ótrúverðug, nema kannski hröð þróun aðalpersónunnar.

4. Vargurinn - Jón Hallur Stefánsson
Í rauninni eina bókin þar sem maður fær að kynnast öllum sögupersónunum nokkuð náið, engin ein sett í sérstakan fókus. Íkveikja á sér stað í smábæ, í þessu tilviki er Seyðisfjörður notaður sem staðsetning, og kemur í ljós að allmargir liggja undir grun eftir allt saman og erfitt reynist að finna þann seka. Jón Hallur hefur víst verið kallaður krónprinsinn og get ég alveg viðurkennt að ég á eftir að seilast eftir fyrri bókum hans.

Ég er ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið allar þessar bækur og á eflaust eftir að nýta bókasafnskortið mitt áður en það rennur út til þess að hafa eitthvað að lesa áður en ég byrja aftur í skólanum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband