Færsluflokkur: Dægurmál

Cameron, James Cameron

Langar ekki að ræða um handbolta í augnablikinu, er enn pínu svekktur. 

Mikið er búið að ræða og rita um nýjustu kvikmynd James Cameron, Avatar, og þykir hverjum sitt eins og von er og vísa.

Þeir sem gagnrýna myndina gera það helst vegna þess hve sagan er mikil klisja og ná að túlka hana þvers og kruss líkt og margir trúaðir einstaklingar gera við helgirit sín í sína þágu.

Fyrir mér er bíó heimur fyrir utan raunveruleikann. Efnið er jú leikið og þar eru sögur sagðar sem rétt eins og í bókum þurfa ekki endilega að vera í takt við raunveruleikann. Um leið og maður fer á hasar- eða ævintýramynd með því hugarfari að tengja hana við raunveruleikann er maður sjálfkrafa búinn að skemma aðeins fyrir upplifuninni um leið og myndin byrjar. Ég gerði þetta einhvern tímann þegar ég fór á James Bond í bíó en eftir um 20 mínútur ákvað ég að slökkva á raunveruleikatengingunni og njóta bíósins.

Það er einmitt það sem Avatar snýst að mörgu leyti um, cinematografían, gott íslenskt orð hef ég ekki á fingrum mínum sem stendur. Fagurfræðin í öllum smáatriðum og 3D-grafíkin gera það að verkum að maður er í raun að upplifa allt annan heim en raunveruleikann. Sagan sjálf var ágæt og ádeilan skemmtileg á tímum sem þessum og í raun þörf. Ástæðan fyrir því að Cameron beið svona lengi með að henda þessari mynd upp á hvíta tjaldið er varla sú að hann hafi þurft að fínpússa handritið, ég hef trú á því að hann hafi verið að bíða eftir réttu tækninni til þess að gera upplifun áhorfandans sem raunverulegasta í sýndarheimi sínum.

Niðurlagið er sem sé að þrátt fyrir að kvikmyndir endurspegli vissulega margsinnis raunveruleikann má ekki mæta þeim með því hugarfari að þar sé stuðst við heilagan sannleik í einu og öllu, ekki einu sinni hálfan sannleik. Bíó á fyrst og fremst að vera skemmtun. Kannski vilja sumir samt hafa kvikmyndir eins og þær voru í nýjustu mynd Ricky Gervais, The Invention of Lying. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband