Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Af forræðishyggju

"Allir vita að nektarbúllur eru gróðrastíur vændis, mansals og eiturlyfjasölu" segir Sigmundur Ernir á bloggsíðu sinni. Hlýtur hann ekki þá að hafa góð og haldbær rök fyrir því að senda Geira á Goldfinger í ansi langt fangelsi? Undarleg ummæli.

En það var annað mál sem var samþykkt á Alþingi sem skók mig eilítið. Að banna ljósabekkjanotkun þeirra sem eru undir 18 ára aldri. Sjálfur er ég foreldri, á þrjú börn, og ætla ég engan veginn að dæma sjálfur um það hversu slæmur eða góður faðir ég er. Verð ég þó samt að segja að ég hlýt fjandakornið að geta borið ábyrgð á því hvað ég tel skynsamlegast fyrir börnin mín þar til þau komast á sjálfræðisaldur og halda utan um eigið fjárræði. Mér er  talsvert illa við að tekið sé framfyrir hendurnar á mér í uppeldisfræðum, nema þá helst af þar til menntuðu fólki eða þeim sem eru mér nánastir og þeim sem hafa reynslu, en það að Alþingi geti sett blátt bann á hluti sem foreldrar hljóta að geta ráðið við finnst mér furðu langt gengið, og skiptir þá litlu máli í hvers konar árferði svona lög eru samþykkt.

Ekki hef ég enn séð ný lög um bankastarfsemi, að hafa viðskiptaheiminn gagnsærri og efla öryggi viðskiptavina og annarra sem eru í kringum fjármálaheiminn þannig að auðveldara sé að koma lögum og reglum yfir þá sem eru bersýnilega ekki að breyta rétt í þeim heimi. Plís farið nú að gera eitthvað í þeim málum og leyfið okkur foreldrunum að hugsa fyrir því hvað er börnunum okkar fyrir bestu. 


Alþingi í fríi ... hverju skilaði byltingin?

Jæja, bylting varð í íslenskum stjórnmálum og íslensku samfélagi fyrir ekki allt of mörgum mánuðum síðan. Kröfurnar um nýja stjórn voru háværar og að þjóðin skildi ekki þurfa að líða fyrir það að borga skuldir einkarekinna fjármálastofnana. Hvað ávannst með byltingunni?

Andstæðingar sjálfstæðisflokksins unnu góðan sigur í kosningunum, það er engin spurning. Samfylkingin vann engan sérstakan sigur, VG bættu verulega við sig og ný hreyfing sem kenndi sig við borgara kom inn þingmönnum. Óþarfi að fara neitt nánar yfir það en í stjórn fóru flokkar sem höfðu haft hávær ummæli um að slá þyrfti "skjaldborg um heimilin" svo ég næli í hugtak úr klisjudeildinni. Sett var á sumarþing, þar sem ástandið í þjóðfélaginu bauð ekki alveg upp á hið hefðbundna þriggja mánaða sumarleyfi Alþingis, þar sem brýnustu mál skildu kláruð.

Samfylkingin er svo helblinduð af töfralausninni ESB að þau hafa ekki einu sinni reynt að leita annarra lausna. Miðstýring hljómar alls ekkert illa í eyrum vinstri sinna nema hvað VG myndi vilja fá að stjórna því sjálf frekar en einhverjir embættismenn í Brussel en samþykktu þó með semingi til þess að fá að hanga aðeins lengur "réttum" megin á þingi. Ákveðið var semsagt að fara út í viðræður án þess þó að útlista það eitthvað sérstaklega hvað við vildum fá út úr þeim!

Þá var ESB umræðan frá í bili og tími til kominn að hjálpa heimilum í landinu eitthvað sem eru að sligast undan skuldum og allt of hárri vísitölu. Njeh, niðurskurður og skattahækkanir voru kjörorðið. Allra helst skattahækkanir sem skila sér út í verðlagið, hækka þannig vísitöluna og auka skuldir heimilanna! Áfengisgjald var hækkað og sykurskatturinn ógurlegi mun líta dagsins ljós á morgun, úr 7% í 24,5%! Ég man ekki til þess að hafa kosið Íþróttaálfinn sem alráð. Þrátt fyrir að vera ekki nauðsynjavörur hafa þær nokkur áhrif á vísitöluna sem skilar sér einfaldlega í hærri afborgunum af lánum. 

Þrátt fyrir gjaldeyrishöft hefur gengi íslensku krónunnar hrunið sem þýðir að allar innfluttar vörur verða mun dýrari, bensín á bílinn er orðið munaðarvara og eru flestar innfluttar vörur að verða exotískar sökum verðs. Að sjálfsögðu skilar þetta sér út í vísitöluna sem hækkar þá afborganir enn frekar.

IceSave var svo drifið í gegnum sumarþingið. Einhvern veginn hefði maður haldið að það hefði getað verið sniðugt að senda þaulvanan harðan samningamann í viðræður við Breta og Hollendinga en niðurstaðan varð stuttur fundur þar sem ákveðið var að við skildum bara redda þessu. Frábært. Svo þykjast menn hafa breytt því eitthvað með einhverjum fyrirvörum sem voru samþykktir á þinginu hér en maður hefði nú haldið að hinir samningaaðilarnir vildu kannski sjá það áður en þeir verða jafn samþykkir.

Jæja, það mál var afgreitt og nú skal komið að því að bjarga heimilunum svo fólk geti farið að hugsa um eitthvað annað en hvernig í fjandanum það eigi nú að fara að því að lifa af á þessu skeri þegar skammdegið fer að skella á. Neibb, Jóhanna og Steingrímur farin á vespunum sínum og veifa okkur "ciao" (stolið af Eddie Izzard, ég veit). Niðurstaðan er semsagt þessi eftir byltinguna: Hærri skattar, krónan er fokkd, við borgum skuldir einkafyrirtækja ... en hey, það er allt í lagi. ESB er töfralausnin!


Það læra börnin ...

Máltækið segir að börnin læri jú það sem fyrir þeim er haft (sem ætti að segja mér að eyða minni tíma í tölvu, síma og við sjónvarp miðað við uppáhaldsleikföng eins árs dóttur minnar).

Í hádeginu í dag eiga að vera mótmæli á Austurvelli þar sem, eftir því sem mér skilst, fólk ætlar að reyna að fá sínu fram með frekjuöskrum. Uuu ... sko. Ekki er langt síðan ég var barn sjálfur og nú á ég þrjú börn og ef það er eitthvað sem ég hef lært sem foreldri þá er það það að láta börnunum mínum það ekki eftir ef þau vilja fá sínu fram með frekjuöskrum. Því hærra sem þau öskra þeim mun meira reynir það vissulega á þolinmæðina en allt snýst þetta um að láta ekki undan.

Nú hefur semsagt fullorðið fólk ákveðið að hópast saman fyrir utan Alþingi og ætlar að fá sínu fram með því að gera það sem þau vilja ekki að börnin sín geri. Hvað eiga börn þá að læra af þessu?


Náttúruhamfarir

Sem ég sit í lesstofu grunnnema (orð með þreföldum sama samhljóða eru frábær) og hef lokið verkefni í rannsóknaraðferðum í mannfræði langar mig að rita eitt.

Mönnum virðist vera tíðrætt um að það sem átti sér stað við hrun bankakerfisins og viðskiptalífsins hér á landi hafi verið náttúruhamfarir og því hafi þáverandi stjórnvöld ekki geta sagt af sér vegna þess að strax þurfti að taka til við nauðsynlegar björgunaraðgerðir. Höldum aðeins áfram með þessa pælingu:

Segjum sem svo að í mörg ár/ marga mánuði væri búið að vara stjórn almannavarnarnefndar við agalegum náttúruhamförum hér á landi á næstunni. Getum ímyndað okkur að sérfræðingar væru búnir að spá gríðarlegu eldgosi sem myndi rústa byggðum í hundruða kílómetra radíus. Ítrekað myndi nefndin og stjórn hennar koma fram í fjölmiðla og þræta fyrir þetta og segja að allt væri í besta lagi og ekkert að marka spár sérfræðinga, þau vissu miklu betur sjálf. Semsagt: Í stað þess að vara fólk við og gera viðeigandi ráðstafanir, hverjar sem þær svo væru, myndu þau láta eins og ekkert hafi í skorist og fólk myndi halda lífi sínu áfram treystandi á forystu þeirra sem eru valdir til starfans.

Svo kemur eldgosið, byggðir leggjast af, fjöldi fólks missir heimili sín og allt sem það hefur unnið fyrir. Er stjórninni og nefndinni þá stætt að halda áfram sínu starfi? Ég bara spyr.


Jah há

Ég veit ekki með Geir, en ef ég hefði fengið svona langt jólafrí eins og hann með öll þau málefni sem liggja á herðum hans þá væri ég ekki að væla yfir því að ég þyrfti einhvern helvítis vinnufrið.

Annað: Hann segir ríkisstjórnina enn hafa þingmeirihluta á bakvið sig. En hverjir eru á bakvið þingmeirihlutann? Jú, kjósendur sem kusu í góðri trú undir allt öðrum forsendum og kringumstæðum og eru nú til staðar. Þegiðu Geir, eða reyndu í það minnsta að hugsa aðeins út í það sem þú segir.

Ég ítreka það að ég er ekki bara andvígur Geir og Flokknum hans, heldur finnst mér Ingibjörg og Fylkingin heldur ekki hafa neitt umboð frá mér eða öðrum kjósendum Fylkingarinnar inni á þingi miðað við hegðun þeirra. Eins hefur andstaðan ekkert gert og verið steingeld. Nýtt fólk takk.


mbl.is Mikilvægt að stjórnin fái vinnufrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er landsfundurinn?

Ég er áhugamaður um pólitík og hef hingað til aðeins kosið einn flokk til Alþingis. Ég bar mikla virðingu fyrir Alþingi og þessum flokk og ber vissulega enn virðingu fyrir Alþingi sem stofnun. Einnig ber ég enn töluverða virðingu fyrir því sem flokkurinn sem ég kaus var sagður standa fyrir þegar hann var stofnaður fyrir nokkrum árum úr bútum annarra flokka og bjóst ég við miklu af honum þegar hann loks komst í stjórn.

Eftir nokkra mánuði í stjórn var ekki að sjá að neitt væri að breytast innan Alþingis. Ég hafði í alvörunni trú á því að innan Fylkingarinnar væri fólk sem væri tilbúið til þess að axla ábyrgð og sæi sér fært að veita öðrum tækifæri ef þeir sem fyrir væru væru ekki að valda sínu starfi. Nú er heldur betur annað komið á daginn. Svo virðist sem Fylkingin sé enn ein eiginhagsmunapotarastofnunin sem situr í ríkisstjórn, færir sér og sínum hærri laun og hærri stöður en gengur og gerist allt í krafti stöðu sinnar. Í hversu mörg ár hafa þingmenn og ráðherrar fengið 15-25% launahækkun þegar almennur markaður hækkaði um kannski 5-10% og afsakanir ráðherra voru að þeir gætu ekkert að þessu gert, kjararáð ræður? Jæja, kannski kominn aðeins út fyrir það sem ég ætlaði að tala um.

Flokkurinn og Framsókn hafa þegar boðað landsfund þar sem um ýmislegt verður karpað og eflaust endurskipulagt fyrir hart ár í vændum. Enn hef ég ekki heyrt af neinu slíku frá Fylkingunni þrátt fyrir að samkvæmt þeirra lögum eigi að vera landsfundur á árinu. Enn fremur stendur í lögunum að ef kosningar beri brátt að megi flýta fundinum. Nú hefur formaðurinn og utanríkisráðherra heldur betur látið í veðri vaka að það beri helst að kjósa, með hinar og þessar hótanir, en hvergi bólar á landsfundi.

Mig langar á landsfund Fylkingarinnar. Þetta er eini flokkurinn sem ég hef getað samsvarað mig við stefnulega séð en mér líst þó ekki á hvert hann er að stefna undir þeirri stjórn sem hann er. Of mikið af fólki bara er þarna, hafa litlar skoðanir á hlutunum og láta eins og það sé allt í lagi að þau viti ekki neitt um það sem hefur verið í gangi í kringum þau. Helst að Jóhanna hafi staðið sig, en yngra fólkið sem maður batt miklar vonir við, vonaði að myndi sýna það og sanna að það yrði ekki forpokað á því að fá vinnu þarna, hefur ekki staðið undir væntingum. Ég er hér með að lýsa því yfir að ég býð mig fram til starfa í stjórn Samfylkingarinnar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband