24.3.2010 | 01:09
Af forræðishyggju
"Allir vita að nektarbúllur eru gróðrastíur vændis, mansals og eiturlyfjasölu" segir Sigmundur Ernir á bloggsíðu sinni. Hlýtur hann ekki þá að hafa góð og haldbær rök fyrir því að senda Geira á Goldfinger í ansi langt fangelsi? Undarleg ummæli.
En það var annað mál sem var samþykkt á Alþingi sem skók mig eilítið. Að banna ljósabekkjanotkun þeirra sem eru undir 18 ára aldri. Sjálfur er ég foreldri, á þrjú börn, og ætla ég engan veginn að dæma sjálfur um það hversu slæmur eða góður faðir ég er. Verð ég þó samt að segja að ég hlýt fjandakornið að geta borið ábyrgð á því hvað ég tel skynsamlegast fyrir börnin mín þar til þau komast á sjálfræðisaldur og halda utan um eigið fjárræði. Mér er talsvert illa við að tekið sé framfyrir hendurnar á mér í uppeldisfræðum, nema þá helst af þar til menntuðu fólki eða þeim sem eru mér nánastir og þeim sem hafa reynslu, en það að Alþingi geti sett blátt bann á hluti sem foreldrar hljóta að geta ráðið við finnst mér furðu langt gengið, og skiptir þá litlu máli í hvers konar árferði svona lög eru samþykkt.
Ekki hef ég enn séð ný lög um bankastarfsemi, að hafa viðskiptaheiminn gagnsærri og efla öryggi viðskiptavina og annarra sem eru í kringum fjármálaheiminn þannig að auðveldara sé að koma lögum og reglum yfir þá sem eru bersýnilega ekki að breyta rétt í þeim heimi. Plís farið nú að gera eitthvað í þeim málum og leyfið okkur foreldrunum að hugsa fyrir því hvað er börnunum okkar fyrir bestu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Rökin fyrir aldurstakmarki í ljósabekki eru læknisfræðileg, á sama hátt og t.d. aldurstakmark á tóbak. Telurðu að hið opinbera sé að grípa inn í verkefni þitt sem foreldris með því að banna sölu á tóbaki til ungmenna?
Ef svo er - í hverju liggur munurinn?
Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 24.3.2010 kl. 01:26
En þá hljóta líka að vera til læknisfræðileg rök fyrir því að banna börnum að kaupa sælgæti og gosdrykki, svo við tökum einhver dæmi. Eins hljóta sömu læknisfræðilegu rök að sýna fram á skaðsemi sólargeisla á líkamann.
Svo er heldur ekki þar með sagt að börn undir 18 ára aldri reyki ekki þó svo þeim sé bannað að versla vöruna, ekki það að ég sé að mæla með því að hún sé í boði enda ræður hið opinbera því hvernig það hagar sölu á þeim eiturefnum sem það leyfir og selur sjálft.
Fram að 18 ára aldri er barnið ekki með fjárræði, svo sem foreldri hlýtur það að vera mitt hlutverk að stýra barninu í rétta átt þar til það verður nógu gamalt ekki satt?
Róbert Jóhannsson, 24.3.2010 kl. 02:36
Þannig að þú myndir líka afnema áfengiskaupaaldur með sömu rökum?
stefán Pálsson (IP-tala skráð) 24.3.2010 kl. 10:37
Veit bara ekki hvort það er skynsamlegt að bera saman vímugjafa og hlut sem menn nota til þess að vera brúnni hvað þetta varðar.
"Banninu er ekki ætlað að koma í veg fyrir að sólarlampar séu notaðir að læknisráði, heldur snýr það aðeins að notkun sólarlampa í fegrunarskyni."
Þetta stendur reyndar orðrétt í fréttatilkynningunni og eins að forvarnir hafi skilað miklum árangri. Er þá bara spurning hvenær stjórnvöld takmarka tíma barna undir 18 ára aldri í sólarljósi skv. sömu rökum?
Róbert Jóhannsson, 24.3.2010 kl. 17:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.