Færsluflokkur: Bækur
10.1.2009 | 00:22
Jólabækurnar
Kláraði í gær að lesa fjórðu og síðustu bókina af þeim skáldsögum sem ég fékk í jólagjöf þetta árið. Allar umræddar bækur voru nýjar og eftir íslenska höfunda líkt og fimmta bókin sem ég fékk, Íslensk Knattspyrna 2008, sem er orðin að klassísku uppflettiriti eins og hinar bækurnar, frábært framtak hjá Víði Sigurðssyni og svo sannarlega til eftirbreytni, væri gaman að sjá svona gert fyrir aðrar íþróttir.
En aftur að skáldsögunum. Allar flokkast þær undir glæpasögur enda þrír af þessum fjórum höfundum þekktir fyrir slíkar sögur.
1. 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp - Hallgrímur Helgason
Einhvers staðar var þessi bók sögð með versta titilinn og þetta væri tilraun höfundar til að vera fyndinn en væri meira í anda menntaskólastráks til þess og væri bara alls ekkert fyndið. Þetta er heldur ekki beint jólabók hjá mér þar sem ég fékk hana í afmælisgjöf og þess vegna las ég hana fyrst. Þetta er mjög óvenjuleg bók á Hallgríms mælikvarða held ég. Það litla sem ég hef lesið eftir hann hingað til er rosalegur orðaflaumur þar sem lítið gerist í lífi aðalpersónunnar sem maður fær þó að kynnast mjög vel og er oft mjög athyglisverð stúdía.
Þessi bók hins vegar er nokkuð hröð og töluvert action í henni. Við fáum að kynnast Króatanum Toxic sem er vel merktur eftir Júgóslavíustríðið og lendir óvænt á Íslandi eftir misheppnað verkefni sem leigumorðingi í New York. Undirliggjandi samfélagsrýni Hallgríms er nokkuð skemmtileg og hann er frábær sögumaður, get alveg mælt með þessari bók, er skemmtileg þó hún sé kannski ekki eitthvað stórvirki.
2. Myrká - Arnaldur Indriðason
Kóngurinn mættur með enn eina bókina en nú fær Erlendur hvíld. Þó er teymið hans í fullu fjöri í þessarri bók og fáum við nú að skyggnast betur inn í líf samstarfskonu hans, Elínborgar. Ágætt að fá smá frí frá Erlendi enda kannski ekki miklu við líf hans að bæta eftir síðustu bækur og málið sem tekið er á í bókinni er nokkuð spennandi og teygir anga sína víða eins og svo oft í bókum Arnaldar. Eins og flestar hans bækur skemmtileg lesning sem maður á erfitt með að skilja við sig.
3. Ódáðahraun - Stefán Máni
Undirheimarnir og andhetjur eru viðfangsefni Stefáns. Ég hef líka lesið Skipið eftir hann þar sem aðalpersónurnar eru nokkuð margar en flestar frekar súrar. Núna er boðið upp á eina aðalpersónu, mann sem hefur gert sig breiðan í undirheimunum eftir fremur erfiða æsku og býðst svo frábært tækifæri til þess að koma sér inn á hvítflibbamarkaðinn. Alveg þrælspennandi bók með fínu plotti og í raun ekkert brjálæðislega ótrúverðug, nema kannski hröð þróun aðalpersónunnar.
4. Vargurinn - Jón Hallur Stefánsson
Í rauninni eina bókin þar sem maður fær að kynnast öllum sögupersónunum nokkuð náið, engin ein sett í sérstakan fókus. Íkveikja á sér stað í smábæ, í þessu tilviki er Seyðisfjörður notaður sem staðsetning, og kemur í ljós að allmargir liggja undir grun eftir allt saman og erfitt reynist að finna þann seka. Jón Hallur hefur víst verið kallaður krónprinsinn og get ég alveg viðurkennt að ég á eftir að seilast eftir fyrri bókum hans.
Ég er ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið allar þessar bækur og á eflaust eftir að nýta bókasafnskortið mitt áður en það rennur út til þess að hafa eitthvað að lesa áður en ég byrja aftur í skólanum.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)